Hvað er Memmm?

Fjölskyldustundir

Memmm Play eru félagasamtök sem bjóða upp á tækifæri fyrir foreldra að hittast, leika, fræðast, og njóta samveru með börnum sínum í notalegu umhverfi. Memmmarar sjá um að bjóða upp á sérvalin leikföng sem hæfa öllum aldurshópum og eru hönnuð til þess að virkja börn til sköpunar og frjáls leiks.


Hugmyndafræði

Hugmyndafræðin á bak við fjölskyldumorgna Memmm er að bjóða foreldrum og ungum börnum þeirra fjölskylduvæna aðstöðu til þess að leika og hitta aðrar fjölskyldur ásamt því að fá fræðslu, stækka tengslanet sitt og barna sinna og að brjóta niður veggi einangrunar sem foreldrar í fæðingarorlofi upplifa oft og tíðum.

Tímabilið á milli þess sem foreldrar eignast barn og þar til barnið hefur skólagöngu sína hjá dagforeldri eða á leikskóla er mikilvægt tímabil sem litast af tengslamyndun við nýjan einstakling og aðlögun fjölskyldunar að nýjum veruleika.  Á Íslandi er lítið úrval af almennum úrræðum fyrir þennan viðkvæma hóp og fá tækifæri til þess að fá fræðslu um foreldra-og uppeldishlutverkið. Memmm fjölskyldumorgnar gera foreldrum kleift að stækka félagslega tengslanet sitt og barna sinna öllum til góða.

Fyrirmynd fjölskyldumorgna Memmm kemur frá frændum okkar í Svíþjóð, en þar hefur verið starfræktur svokallaður opinn leikskóli (Öppna förskolan) frá í kringum 1970.  Frekari upplýsingar má finna HÉR.
Uppbygging opna leikskólans er sú að hann er gjaldfrjáls, ekki þarf að skrá barn til dvalar, foreldrar mæta með börnum sínum, starfsfólk sér um utanumhald, fræðslu og leggur til efnivið og dagskrá fyrir fjölskyldur sem hann sækja. Meðal þess sem boðið er upp á er fræðsla í samstarfi við starfsfólk ungbarnaverndar heilsugæslunnar. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

  • Brjóstagjafaráðgjöf
  • Næring ungbarna
  • Fræðsla um fæðingaþunglyndi
  • Fræðsla um mikilvægi málörvunar
  • Skyndihjálp fyrir ung börn

Opni leikskólinn í þeirri mynd sem hann er í dag í Svíþjóð er opinn frá 8.00 og til 16.00 og geta foreldrar komið með börnin sín þegar þeim hentar yfir daginn. Engin skólagjöld eru innheimt og sveitarfélögin reka skólana.


Markmið og framtíðarsýn

Okkur í Memmm finnst sárlega vanta sambærilega þjónustu við barnafjölskyldur hér á landi og tókum það skref að setja á stofn vísi að opnum leikskóla í Reykjavík. Eins og allt grasrótarstarf þá er það byggt upp á hugsjónum og ástríðu fyrir málefninu og má svo sannarlega segja að Memmmarar brenni fyrir því að gera Ísland að fjölskylduvænna samfélagi.

Það er okkar von okkar að opni leikskólinn eigi sér framtíð á Íslandi í þeirri mynd sem Svíar hafa þróað fyrir sínar barnafjölskyldur, gjaldfrjáls og aðgengilegur öllum.

Blíð byrjun og Penn Green fjölskyldumiðstöðin

Hér á Íslandi hefur mikið starf verið unnið í málaflokki fjölskyldna á síðustu áratugum og margt gott komið út úr þeirri vinnu þó svo að ávalt megi gott batna. Á árunum 2008 – 2011 var sett af stað vinna við verkefnið Blíð byrjun innan Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar. Hugmyndin kviknaði upp frá Penn Green fjölskyldumiðstöðinni í Corby á Englandi sem sett var á stofn af Margy Walley og fleirum árið 1983 og átaksverkefnisinu Sure Start frá árinu 1999. Penn Green fjölskyldumiðstöðin og Sure Start átaksverkefnið miða að því að samþætta þjónustu við foreldra með ung börn í Bretlandi.

Mikil og góð vinna var unnin af starfshópi verkefnisins árin á eftir en upp úr efnahagshruninu virðist sem áherslur borgarinnar hafi breyst, eðli málsins samkvæmt, og verkefnið virðist ekki hafa lifað af. Hins vegar urðu til tillögur að úrræðum sem starfshópurinn setti saman í lokaskýrslu og ríma þær við hugmyndir okkar að bættari þjónustu við fjölskyldur í borginni.

Skýrsluna má finna á vef Reykjavíkurborgar: https://reykjavik.is/blid-byrjun-skyrsla-starfshops


%d bloggurum líkar þetta: